Enn eitt andlit Me Too umræðunnar

Einn af face-book vinum mínum - mikill öndvegis manneskja - sagði á dögunum skoðun sína á Me Too umræðunni. Skoðun hans féll í grýttan jarðveg hjá sumum face-book vina hans og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Einn vina hans tók færsluna og setti sína eigin face-book síðu og þar héldu athugasemdirnar áfram og urðu enn heiftarlegri. Höfundinum var úthúðað, margt ljótt var sagt. Skoðun hans var ekki "sú rétta", hún féll ekki að fyrirfram ákveðnum ramma sem fyrir hendi var. Enn einu sinni sér maður að tjáningarfrelsið margrómaða er afskaplega flókið fyrirbæri - allavega eins og það er túlkað hér á landi. Einhver, eða einhverjir ákveða hvað má og hvað má ekki, en oftar en ekki eru reglurnar óvissar þangað til þú er búin að "træde i spinaten" og færð yfir þig holskeflu vandlætingar og heiftarlegra viðbragða. Hvað rétt hafa þessir "einhverjir" til að setja reglur um  hvaða skoðun ég og/eða aðrir hafa á hinu og þessu? Ekki nokkurn rétt, segi ég! Ég hef ekki sömu skoðun og umræddur vinur minn, en hans skoðun er jafnrétthá og mín, hún er hvorki betri né verri.

Me Too umræðan er vandmeðfarin, það er auðvelt að missa sjónar á því sem raunverlega skiptir máli sem er að mínu mati virðing gagnvart manneskjunni og því sem hún stendur fyrir.  Einn af fyrirlesurum á sameiginlegum fundi stjórnmálaflokkanna um málefnð sl. mánudag var Valdís Ösp Ívarsdóttir, guðfræðingur og fíknifræðingur. Á einfaldan og myndrænan hátt sýndi hún hvernig ofbeldið myndar rof í persónuleg mörk þolandans og hverjar afleiðingarnar verða. Valdís Ösp sagði líka að gerandinn plani alltaf það sem hann ætlar sér að gera og þetta er mikilvægur punktur. Kynbundið ofbeldi, niðurlægjandi athugasemdir, einelti, mismunun og misrétti koma ekki bara rétt sisvona - þessi framkoma/hegðun er planlögð og markviss. Gerandinn(ofbeldismaðurinn)þarf því að vera búinn að tryggja sér rétta umhverfið, réttu aðstæðurnar ef honum á að takast ætlunarverkið. Hann þarf því að undirbúa, hann þarf að eiga sér bandamenn, tryggja að baklandið sé á hans bandi, að hann geti óáreittur beitt því ofbeldi sem hann var búinn að skipuleggja. Um þetta hefur ekki verið rætt, hver er ábyrð bandamannanna? Þeirra sem annað hvort taka þátt i ofbeldinu eða horfa upp á það án þess að grípa inn í? Í öðrum glæpum er talað um að vera meðsekur. Á það ekki líka við í þessum málum?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband