Illt er að tala tungum tveim og mæla sitt með hvorri"

Ég las á dögunum pistil þar sem höfundur fer mikinn í andúð sinni á andúð þeirra sem ala á útlendingahatri og öfgafullri þjóðernishyggju. Höfundur sem er að hasla sér völl í þjóðlífinu þessa dagana, hefur mörg orð um það hvernig við samlandar hans eigum að vita og muna hver séu grunngildi siðmenntaðra þjóða og hvernig skuli gefa rými fyrir mismunandi lífsskoðanir og lífsgildi. Aldrei skuli sætta sig við mismunun, sama hvað nafni sem hún nefnist, að öðrum kosti muni boðskapur heiðarleika, réttlætis og mannúðar ekki ná fram að ganga. Mér skilst að pilsillinn atarna sé úrdráttur úr ræðu sem höfundur hélt yfir skoðanasystkinum sínum og þar var víst ekki auga þurrt að ræðu lokinni. Það skil ég vel, ég hreinlega klöknaði við lesturinn! Þvílík manngæska, þvílíkt happ að hafa slíkan einstakling við stjórnvöl stofnuar! Hver er þetta eiginlega?  Augu mín snarþornuðu þegar ég las nafn höfundarins, ég þekki nefnilega til annarrar hliðar á viðkomandi og sú hlið er í hróplegu misræmi við þá skoðun sem fram kemur í skrifunum og einkennist hvorki af réttlæti né heiðarleika. Þvert á móti hefur höfundur stuðlað að ýmiskonar athæfi sem engan veginn samræmist því sem þar kemur fram. T.d. er "tilfærsla fjármagns" (eitthvað sem venjulegt fólk kallar þjófnað), mismunun og einelti eitthvað sem þessi réttlætispostuli getur bætt við CV ið sitt. Þvílíkur tvískinnungur! Það  mætti halda að pistlahöfundur ætlaði sér í framboð, skrifin líkjast svo mjög skoðun pólitíkusa - þ.e.a.s. í aðdraganda kosninga. Svo gleymist náttúrulega skoðunin sú. Já, illt er að tala ttungum tveim og mæla sitt með hvorri. 


Hver ætlar að taka á móti?

Hverslags fáránleiki er í gangi? Lósmæður geta ekki fengið réttmæta leiðréttingu á kjörum sínum og eru að gefast upp á að vinna við fagið sitt á meðan "hófleg" hækkun á mánaðarlaunum bankastjóra er um ein og hálf milljón! Bara hækkunin eru tvöföld laun ljósmóður. Er einhver að reyna að halda því fram að þessi mismunun sé vegna mikillar ábyrgðar bankastjórans? Ég er sannfærð um að menntuð ljósmóðir getur alveg unnið í banka - jafnvel verið bankastjóri. Þær eru margar með góða stjórnunarreynslu auk fagmenntunarinnar. En skyldi þessi ágæta kona sem gegnir stöðu bankastjóra Landsbankans treysta sér til að ganga í störf ljósmóðurinnar? Hver skyldi hafa tekið á móti börnunum hennar og/eða börnum sitjandi ráðherra? Varla einhver bankakona!


Hundar og eldri borgarar í strætó

Einhvern veginn tekst að flækja alla skapaða hluti, samanber túlkun Reykjavíkurborgar á því hvernær borgari verður "eldri" borgari - þ.e.a.s. ef viðkomandi ætlar að nota almenningssamgögur. Á nokkrum mánuðum tókst að breyta aldurs-skilgreiningunni í þrígang; úr 67 ára yfir í 70 ára og nú aftur í 67 ára - það þarf nú oft minna en þetta til að rugla mann! Það eru reyndar ekki bara starfsmenn Reykjavikurborgar sem velkjast í vafa, það virðist sem eldri-borgara-skilgreiningin sé svolítið "hipsumhaps" hér á landi og hvert sveitarfélag hafi sinn háttinn á. Eftir 60 ára afmælisdaginn er maður boðinn velkominn i félag eldri borgara, fær afsláttarkort og hvað eina - þó ekki í strætó! Það getur semsé verið 10 ára munur á því hvenær meður flokkast sem eldri borgari, allt eftir því hvar maður býr og hvaða þjónustu er verið að sækja. Það mætti nú alveg líta til nágrannalandanna og sjá hvernig þessi mál eru leyst þar. Það var gert við undirbúning reglna um hunda í srætó, enda löng reynsla af því td. í Danmörku. Þar eru öll gæludýr velkomin, ef þau eru í búri eða tösku ferðast þau frítt, fyrir stóra hunda þarf að borga. Í dönskum strætó er líka alveg á hreinu hvenær borgari verður "pensionist" og borgar þá sem slíkur - og sömu reglur gilda um allt land. Hvaða ráðuneyti ætli eigi að sjá um þetta? Smgönguráðuneyti? Innanríkisráðuneytið? Spyr sú sem ekki veit :-)

Það á að vera pláss fyrir alla í strætó, fólk á öllum aldri og hunda af öllum stærðum og gerðum, en eins og annars staðar í samfélaginu þarf auðvitað að sýna tillitssemi og umburðarlyndi.


Hver á að sjá um að ég fari á kjörstað?

Þeir eru margir starfshóparnir sem núverandi borgarstjórn hefur sett á laggirnar og um fæsta þeirra vitum við borgarbúar nokkuð  - hvað þá heldur heyrum við eitthvað af því sem út út hópvinnunni kom. Einn af hópunum átti samkvæmt erindisbréfinu að koma með tillögur að aðgerðum til þess að auka kosningarþátttöku í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningum 2018. Sérstaklega átti hópurinn að beina sjónum að ungu fólki og fólki af erlendum uppruna. Eitthvað hefur borgarstjóri verið uggandi yfir pólistískri framtíð sinni því honum lágu heil óskup á að fá þetta í gang, hann gaf hópnum einungis tæpa tvo máuði til að vinna verkið - en það hefur eflaust nægt þessum sérvalda fjörurra manna hópi þar sem tveir voru titlaðir "verkefnastjórar" en hinir tveir voru "sérfræðingar" . Niðurstöðum var skilað, ég hef ekki lesið neina skýrslu en fjallað var um þetta í fréttum fyrr í vikunni. Virtist sem áhersla fréttaflutningsins beindist sérstaklega að dvínandi kosningarþátttöku innflytjanda en orsökum þess gerð minni skil. Einn viðmælenda benti á að  hér á landi væru innflytjendur lengur að öðlast kosningarétt en td. á Norðurlöndunum og efast ég ekki um að hann sé að fara með rétt mál. Innflytjendur frá Norðurlöndunum þurfa að hafa búið á Íslandi í þrjú ár til að geta kosið, innflytjendur frá öðrum löndum í fimm ár. Fimm ár er langur tími ef einstaklingurinn hefur áhuga á stjórmálum og því samfélagi sem þú býrð í -  en þeir einstaklingar fara örugglega á kjörstað um leið og þeir fá kosningarétt.

Ég hef búið erlendis árum saman og samkvæmt reglum á þeim tíma fékk ég kosningarétt til sveitarstjórnakosninga eftir þriggja ára búsetu í landinu. Það var líka fyrst þá sem ég var orðin það vel að mér í gildandi reglum og hefðum í samfélaginu að ég gat metið hvaða áherslur ég vildi sjá, hvað þurfti að vera öðruvísi og hvað vildi ég sjá óbreytt. Það var líka fyrst þá sem ég hafði fullkomið vald á tungumálinu þannig að ég gæti fylgst með í töluðum og skrifuðum fréttaflutningi og öðrum upplýsingum um ástand og aðstæður í samfélaginu. Fyrr hefði ég ekki haft það til að bera sem mér finnst að þurfi að vera til að geta kosið, þe. þekkingu og skilning á samfélaginu og vald á tungumálinu. Það var enginn að eltast við að koma mér á kjörstað fyrr, ég sá sjálf um að verða mér úti um upplýsingar þagar ég var tilbúinn til að taka þá ábyrgð sem fylgir kosningarétti.

"Okkur gengur ekki nógu vel að miðla upplýsingum, hvorki um flokkana eða stefnumál þeirra,  upplýsingamiðlunin er að klikka dálítið" sagði formaður starfshópsins í viðtali á RUV. Það er ekkert skrítið segi ég - fólk verður að geta lesið sér til gagns ef það á að geta nálgast upplýsingarnar. Fólk sem hefur búið hér árum saman og getur ekki enn tjáð sig á íslensku, getur illa meðtekið skriflegar upplýsingar hvort heldur sem þær eru á fréttamiðlum eða ætlað þeim persónulega. Innflytjendur sem vilja taka þátt samfélaginu, ma. með því að kjósa fulltrúa til sveitarstjórnar verða sjálfir að taka ábyrgð, en það gera þeir eins og fyrr sagði með að afla sér þekkingar og skilnings á samfélaginu ásamt nauðsynlegri tungumálakunnáttu. Þegar þetta liggur fyrir er ég sannfærð um að innflytjendur flykkjast á kjörstað alveg eins og við hin sem höfum áhuga á stjórnmálum og uppbyggingu samfélagins sem við búum í. Hættið að láta eins og fólk hugsi ekki sjálft!

Skoða tillögur starfshópsins sem beindust að unga fólkinu seinna ;-) 

 

 


Öfugmælavísur nútímans

Þegar ég var lítil stelpa var ég tíður gestur á heimili móðurbróður míns, á heimilinu bjó einnig tengdafaðir hans - þá orðinn eldgamall, að því að mér fannst allavega. Ég náði að kynnast honum vel, og það sem meira var að hlusta á sögurnar hans en hann var mikill sögumaður. Uppáhaldssögurnar hans voru sögur af "Vellygna Bjarna", en Bjarni þessi þótti ljúga betur og sennilegar en flestir aðrir og fékk því þessa nafnbót. Mér þóttu margar sögurnar svakalegar og var fengin að vita að þæru væru hreinn uppspuni. Þessi gamli maður kunni líka margar öfugmælavísur og hafði mikla unun af að fara með þær fyrir mig og skemmti sér konunglega yfir trúgirni minni, en ég sætti mig illa við við að öllu væri snúið svona á haus!

Fréttir undanfarna daga hafa rifjað upp þessa minningu frá æskuárunum, mér hefur verið hugsað til sagnanna af vellygna Bjarna, en ekki síður til öfugmælavísnanna sem ég heyrði sem barn og átti svo erfitt með að skilja. Nú segir Wikipedia mér að: "Öfugmælavísa er vísa sem segir öfugt frá því sem gengur og gerist í heiminum, það er að öllu er lýst þveröfugt við raunveruleikann (td. myrkur kallað bjart, steinn mjúkur, o.s.frv.) Öfugmælavísur eru oftast kveðnar í hálfkæringi, en stundum einnig með broddi" 

Öfugmælin í íslenskum samtíma eru fjölmörg, en þetta annars ágæta orð "öfugmæli" er sjaldan notað í því sambandi. Í aðdragana kosninga hafa öfugmæli verið endurskírð sem t.d. "kosningarloforð", "viljayfirlýsingar", " þetta þarf og þetta ætti að" o.s.frv. Eftir kosningar skemmta sér svo flytjendur öfugmælavísnanna sér yfir trúgirni okkar hinna. Þeir eru margir "vellygnu Bjarnarnir" sem hafa komist inn á alþingi Íslendinga, bæði sem kjörnir fulltrúar og svo hinir sem duttu bara óvart inn sem "uppbót" (hlýtur að vera óhemju pínlegt að sitja þarna sem "uppbót" !)

Allir - og ég meina virkilega ALLIR hafa haft mörg og fögur orð um miklilvægi þess að vernda börnin okkar, að það sé skylda okkar númer eitt - og hvað erum við að horfa uppá núna? Hver samdi þessa öfugmælavísu?

Gerendur ofbeldis  nýta sér gamla íslenska sagnahefð með sögur vellygna Bjarna og öfugmælavísurnar að leiðarljósi, þeir mæta skinhelgir í opinberar umræður og tala "öfugt", semsé tala á alla hátt þveröfugt við þeirra innsta eðli, framkomu og háttarlag - og  BINGÓ! Öfugmælin verða tekin sem mikilvægt framlag í umræðuna sem heiðvirðir þátttakendur gefa brautargengi. Vellygni Bjarni er endurvakinn og í samtímanum er hann ekki bara skemmtiefni, hann er stórvarasamur. Ég vildi óska að ég kynni að búa til öfugmælavísur - ég vildi reyndar að ég kynni að búa til einhverjar vísur :-)


Froðusnakkar sem stela fjöðrum

Á dögunum auglýsti Ísafjarðarbær í samstarfi við Súðavíkurhrepp og Bolungarvíkurkaupstað eftir metnaðarfullum einstaklingi í starf verkefnastjóra vegna móttöku flóttafólks. Menntunar- og hæfniskröfur voru taldar upp: umsækjendur skulu hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi, æskilegt væri (ekki krafa um) að þekking á úrræðum sveitarfélagsins í opinberri stjórnsýslu og atvinnulífi og sem tengdust málaflokknum væri fyrir hendi, sömuleiðis væri æskilegt (ekki krafa um) að umsækjendur hefðu haldbæra reynslu í verkefnastjórnun. Góða ensku og íslenskukunnáttu skulu umsækendur hafa, þeir skulu hafa frumkvæði, hafa til að bera sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum og síðast, en ekki síst skulu þeir hafa framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.

Ég hefði ekki séð þessa auglýsingu nema vegna þess að face-book vinkona mín deildi henni (hún er enn ein fyrirtaksmanneskjan sem ég er svo vel sett að eiga sem vin á face-book). Auk þess að vinna að hinum ýmsu þjóðþrifamálum, lætur hún velferð fóttafólks sig miklu varða og vinnur aktívt hálparstarf á því sviði. Fyrst hugsaði ég: já, auðvitað er þetta staða fyrir hana, eins og sniðið fyrir hana og hún býr þar að auki þarna fyrir vestan. En nei, ónei - athugasemdir hennar við deilinguna voru að hana vantaði þessa umbeðnu háskólamenntun til að geta sótt um. Málið er að HÚN HEFUR ALLT HITT! En bara vegna þess að hún hefur ekki ALLT sem talið er umm fannst henni hún gæti ekki komið til greina sem umsækjandi. Þarna liggja margir hundar grafnir, þarna er ótrúlega mikill munur á körlum og konum - og ég veit býsna mikið um það eftir að hafa í gegnum tíðina tekið þátt í hundruðum ráðningarsamtala sem stjórnandi, ráðgjafi og observant bæði hér á landi og erlendis og þar sem bæði kynin hafa verið í viðtölum. Það er með ólíkindum hvað munurinn er mikill; til að einfalda þetta þá gera koonurnar minna úr öllu en karlarnir gera meira úr öllu. Eflaust eru undantekningar, ég hef bara ekki fyrirhitt þær.

Undrandi las ég opinbert CV karls nokkurs þar sem hver háskólinn á fætur öðrum hérlendis og erlendis er talinn upp og þar með gefið í skyn að viðkomandi hafi menntun þaðan - þrátt fyrir að almennt sé vitað að hann hefur í mesta lagi setið einn fund eða fyrirlestur á staðnum, maðurinn er nánast ómenntaður. Þrátt fyrir það hefur hann haft afar vellaunaða stöðu hjá hinu opinbera árum saman og er enn á spena þar. Svona einstaklinga er að finna víða í kerfinu, þeir hika ekki við að stela fjöðrum til að skreyta sig með, þeir læra réttu frasana og slá ryki í augu margra - en sem betur fer ekki allra - viðmælenda sinna - td. í ráðningarsamtölum. Afleiðingarnar verða að við sitjum uppi með óviðsættanlega marga óhæfa froðusnakka í mikilvægum stöðum í samfélaginu, froðusnakka sem uppfylltu í mesta lagi eina af uppsettum kröfum til starfsins.  Við höfum aftur á móti í mörgum tilvikum misst af best hæfa einstaklingnum sem ekki sótti um af því að hann uppfyllti ekki allar kröfurnar. Þetta er ekki í lagi!


"Ég las það í dönsku blaði"

Eva Hertz er danskur sálfræðngur og stofnandi miðstöðvar sem sérhæfir sig í að hjálpa fólki til að auka andlegan styrk sinn. (Mental robusthed). Eva skilgreinir "mental robusthed" sem sálfræðilega færni sem hjálpar persónunni að takast á við mótlæti, stress og ögranir  - en um leið að passa upp á eigið sjálf. Fyrir nokkrum árum tók hún þátt í að þjálfa danska hermenn sem sendir voru til Afganistan, hennar þáttur í þjálfuninni var að þjálfa - og auka andlegan styrk hermannanna til að geta betur tekist á við þær ógnir sem myndi mæta þeim. Þetta var tilraunaverkefni, en árangurinn var óumdeilanlegur, ekki einungis á vígvellinum  gátu hermennirnir nýtt sér þessi fræði, heldur einnig eftir að heim var komið. Þessi jákvæða reynsla varð hvati að aðlögun prógrammsins að vinnumarkaðinum, en eins og Eva bendir á eru starfsmenn almennt undir sífellt meiri kröfum um aukin sveigjanleika og afköst sem auka mjög hættu á stressi og "burn out" einkennum. Á fyrstu árum hennar sem sálfræðingur (fyrir ca 15 árum) var fólk yfirleitt að leita til hennar með vandamál tengdum einkalífinu, í dag er það undantekning segir hún - langflest vandamál sem fólk þarf aðstoð við er tengt vinnunni! Slæm stjórnun og vont sálfræðlegt vinnuumhverfi er það lang algengasta og um leið það lang hættulegasta.

Það þarf mikinn andlegan styrk til að geta uppfyllt kröfur nútíma vinnuumhverfis og á sama tíma aðlagast samfélaglegum breytingum sem gerast hraðari en auga á festir - án þess að stressið nái tökum á lífi manns. Ef við bætast vondir yfirmenn sem stunda (og komast upp með það) einelti og ofbeldi, erum við komin með bráðdrepandi kokteil. Eva vitnar í sænska rannsókn sem náði til 20.000 starfsmanna, vondur yfirmaður eykur líkur á hjartaáfalli um 25%. Hún segir líka að stress sé orsök sjötta hvers andláts í Danmörku, það er nú ekkert annað!  Við eigum sjálfsagt enga svona statistík á Íslandi, en umræða undanfarinna vikna segir okkur að við eigum langt í land þegar að heilbrigðu vinnuumhverfi kemur. Orð eru til alls fyrst, vissulega er það rétt - en það er ekki nóg að tala og það er ekki sama hvernig unnið er að málum. Það er ekki nóg að skipta bara um hljóðkút svo það heyrist minna í bílnum - farartækið verður það sama. Og það sem meira er, ef bilstjórinn verður sá sami breytist ekki leiðin nokkurn skapaðan hlut, undir niðri verður allt eins. Það verður að hreinsa til frá botninum, drullan hverfur ekki þótt lögð verði falleg yfirbreiðsla ofan á hana! 


Enn eitt andlit Me Too umræðunnar

Einn af face-book vinum mínum - mikill öndvegis manneskja - sagði á dögunum skoðun sína á Me Too umræðunni. Skoðun hans féll í grýttan jarðveg hjá sumum face-book vina hans og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Einn vina hans tók færsluna og setti sína eigin face-book síðu og þar héldu athugasemdirnar áfram og urðu enn heiftarlegri. Höfundinum var úthúðað, margt ljótt var sagt. Skoðun hans var ekki "sú rétta", hún féll ekki að fyrirfram ákveðnum ramma sem fyrir hendi var. Enn einu sinni sér maður að tjáningarfrelsið margrómaða er afskaplega flókið fyrirbæri - allavega eins og það er túlkað hér á landi. Einhver, eða einhverjir ákveða hvað má og hvað má ekki, en oftar en ekki eru reglurnar óvissar þangað til þú er búin að "træde i spinaten" og færð yfir þig holskeflu vandlætingar og heiftarlegra viðbragða. Hvað rétt hafa þessir "einhverjir" til að setja reglur um  hvaða skoðun ég og/eða aðrir hafa á hinu og þessu? Ekki nokkurn rétt, segi ég! Ég hef ekki sömu skoðun og umræddur vinur minn, en hans skoðun er jafnrétthá og mín, hún er hvorki betri né verri.

Me Too umræðan er vandmeðfarin, það er auðvelt að missa sjónar á því sem raunverlega skiptir máli sem er að mínu mati virðing gagnvart manneskjunni og því sem hún stendur fyrir.  Einn af fyrirlesurum á sameiginlegum fundi stjórnmálaflokkanna um málefnð sl. mánudag var Valdís Ösp Ívarsdóttir, guðfræðingur og fíknifræðingur. Á einfaldan og myndrænan hátt sýndi hún hvernig ofbeldið myndar rof í persónuleg mörk þolandans og hverjar afleiðingarnar verða. Valdís Ösp sagði líka að gerandinn plani alltaf það sem hann ætlar sér að gera og þetta er mikilvægur punktur. Kynbundið ofbeldi, niðurlægjandi athugasemdir, einelti, mismunun og misrétti koma ekki bara rétt sisvona - þessi framkoma/hegðun er planlögð og markviss. Gerandinn(ofbeldismaðurinn)þarf því að vera búinn að tryggja sér rétta umhverfið, réttu aðstæðurnar ef honum á að takast ætlunarverkið. Hann þarf því að undirbúa, hann þarf að eiga sér bandamenn, tryggja að baklandið sé á hans bandi, að hann geti óáreittur beitt því ofbeldi sem hann var búinn að skipuleggja. Um þetta hefur ekki verið rætt, hver er ábyrð bandamannanna? Þeirra sem annað hvort taka þátt i ofbeldinu eða horfa upp á það án þess að grípa inn í? Í öðrum glæpum er talað um að vera meðsekur. Á það ekki líka við í þessum málum?  


Jæja, þá er komið að því!

Fyrir um áratug síðan bjó ég um tíma á eyju í Karabíska hafinu. Það var afar sterk upplifun og mikil lífsreynsla. Þá bloggaði ég um mitt daglega líf og það sem fyrir augu bar á þessum framandi stað. Bloggið var annars vegar dagbókin mín og hins vegar fréttir og upplýsingar til minna nánustu. Ég hef ekki hugsað mikið um þessi skrif mín síðan, var satt að segja búin að gleyma þeim - það snjóar yfir mörg sporin á heilum áratug!  En núna, þegar ég fór að leita að stað fyrir Ofbjóðinn minn, hvað finn ég þá ekki nema gömlu bloggslóina og ef mér skjátlast ekki mikið þá er þetta allt þarna inni frá eyjadvölinni minni - með myndum og hvað eina :-)

En það var þá, nú er nú og ætla ég að einbeita mér að því sem fyrir augu og eyru ber í nútíðinni og fókusera á framtíðina fremur en að dvelja í fortíðinni. En við skulum alltaf vera minnug þess að það væri engin nútíð ef ekki hefði verið nein fortíð - og það er vísast einhver ástæða fyrir því hvernig flest er og hefur þróast. "Allt er útaf dottlu" eins og konan sagði :-)Þannig að fortíðarinnar verður líka minnst hér í Ofbjóðinum!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband