Öfugmælavísur nútímans

Þegar ég var lítil stelpa var ég tíður gestur á heimili móðurbróður míns, á heimilinu bjó einnig tengdafaðir hans - þá orðinn eldgamall, að því að mér fannst allavega. Ég náði að kynnast honum vel, og það sem meira var að hlusta á sögurnar hans en hann var mikill sögumaður. Uppáhaldssögurnar hans voru sögur af "Vellygna Bjarna", en Bjarni þessi þótti ljúga betur og sennilegar en flestir aðrir og fékk því þessa nafnbót. Mér þóttu margar sögurnar svakalegar og var fengin að vita að þæru væru hreinn uppspuni. Þessi gamli maður kunni líka margar öfugmælavísur og hafði mikla unun af að fara með þær fyrir mig og skemmti sér konunglega yfir trúgirni minni, en ég sætti mig illa við við að öllu væri snúið svona á haus!

Fréttir undanfarna daga hafa rifjað upp þessa minningu frá æskuárunum, mér hefur verið hugsað til sagnanna af vellygna Bjarna, en ekki síður til öfugmælavísnanna sem ég heyrði sem barn og átti svo erfitt með að skilja. Nú segir Wikipedia mér að: "Öfugmælavísa er vísa sem segir öfugt frá því sem gengur og gerist í heiminum, það er að öllu er lýst þveröfugt við raunveruleikann (td. myrkur kallað bjart, steinn mjúkur, o.s.frv.) Öfugmælavísur eru oftast kveðnar í hálfkæringi, en stundum einnig með broddi" 

Öfugmælin í íslenskum samtíma eru fjölmörg, en þetta annars ágæta orð "öfugmæli" er sjaldan notað í því sambandi. Í aðdragana kosninga hafa öfugmæli verið endurskírð sem t.d. "kosningarloforð", "viljayfirlýsingar", " þetta þarf og þetta ætti að" o.s.frv. Eftir kosningar skemmta sér svo flytjendur öfugmælavísnanna sér yfir trúgirni okkar hinna. Þeir eru margir "vellygnu Bjarnarnir" sem hafa komist inn á alþingi Íslendinga, bæði sem kjörnir fulltrúar og svo hinir sem duttu bara óvart inn sem "uppbót" (hlýtur að vera óhemju pínlegt að sitja þarna sem "uppbót" !)

Allir - og ég meina virkilega ALLIR hafa haft mörg og fögur orð um miklilvægi þess að vernda börnin okkar, að það sé skylda okkar númer eitt - og hvað erum við að horfa uppá núna? Hver samdi þessa öfugmælavísu?

Gerendur ofbeldis  nýta sér gamla íslenska sagnahefð með sögur vellygna Bjarna og öfugmælavísurnar að leiðarljósi, þeir mæta skinhelgir í opinberar umræður og tala "öfugt", semsé tala á alla hátt þveröfugt við þeirra innsta eðli, framkomu og háttarlag - og  BINGÓ! Öfugmælin verða tekin sem mikilvægt framlag í umræðuna sem heiðvirðir þátttakendur gefa brautargengi. Vellygni Bjarni er endurvakinn og í samtímanum er hann ekki bara skemmtiefni, hann er stórvarasamur. Ég vildi óska að ég kynni að búa til öfugmælavísur - ég vildi reyndar að ég kynni að búa til einhverjar vísur :-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband